Efndir kosningaloforða Besta Flokksins

Í tilefni þess að skólar eru um þessar mundir að hefjast, þá hækkaði verð á nemakortum í strætó úr 20.000 kr í 38.500 kr. Skömmustulegur þjónustufulltrúi hjá fyrirtækinu svaraði því til að hækkunin byggðist helst á niðurskurði fjárveitinga frá borginni. Það má nefna að leiðakerfið er gisið og ferðir strjálar. Ég verð því miður að viðurkenna að ég, líkt og fleiri lét glepjast og kaus Besta Flokkinn í skorti á betri kosti, grunlaus um lævís og útsmogin vinnubrögð Samfylkingarinnar til að ná völdum í höfuðborginni. Til gamans læt ég fylgja með fögur fyrirheit skemmtikraftanna.

Stefnumál Besta Flokksins

1. Hjálpa heimilunum í landinu
Fjölskyldan er það besta í samfélaginu. Stjórnvöld þurfa að mæta þörfum og kröfum heimilana. Reisa þarf járnbenda skjaldborg um heimilin í landinu. Íslensk heimili eiga aðeins skilið það besta.

2. Bæta kjör þeirra sem minna mega sín
Við viljum allt það besta fyrir svoleiðis lið og bjóðum því ókeypis í strætó og sund þannig að maður geti ferðast um Reykjavík og verið hreinn þótt maður sé fátækur eða eitthvað að manni.

3. Stöðva spillingu
Við lofum að stöðva spillingu. Við munum gera það með því að stunda hana fyrir opnum tjöldum

4. Koma á jöfnuði
Allir eiga það besta skilið sama hverjir þeir eru og hvaðan þeir koma. Við munum gera best fyrir alla þannig að allir séu saman í besta liðinu.

5. Auka gegnsæi
Það er best að hafa allt uppá borðinu þannig að almenningur viti hvað er að gerast. Við segjumst styðja það.

6. Virkt lýðræði
Lýðræði er ágætt en virkt lýðræði er best. Þess vegna viljum við það.

7. Fella niður allar skuldir
Við hlustum á þjóðina og gerum eins og hún vill því þjóðin veit best hvað er sér fyrir bestu.

8. Ókeypis í strætó fyrir námsmenn og aumingja
Við getum boðið meira af ókeypis en allir aðrir flokkar því við ætlum ekki að standa við það. Við gætum haft þetta hvað sem er, til dæmis ókeypis flug fyrir konur eða ókeypis bílar fyrir fólk sem býr útá landi. Það skiptir ekki máli

9. Ókeypis tannlæknaþjónusta fyrir börn og aumingja
Þetta er eitthvað sem vantar og við viljum endilega taka þátt í að lofa því

10. Ókeypis í sund fyrir alla og frí handklæði
Þetta er eitthvað sem allir ættu að falla fyrir og er það kosningaloforð sem við erum stoltust af

11. Láta þá svara til saka sem bera ábyrgð á hruninu
Fannst við verða að hafa þetta með.

12. Algjört jafnrétti kynja
Við lofum algjöru jafnrétti vegna þess að það er best fyrir alla.

13. Hlusta meira á konur og gamalt fólk
Það er alltof lítið hlustað á þetta lið. Það er eins og öllum finnist það bara vera eitthvað að röfla. Við ætlum að breyta því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband