Mjór er mikils vísir.

Þessi nýi flutningasamningur er frábær stuðningur við Flugleiði á þessum síðustu og verstu tímum nú þegar flest helstu flugfélög heimsins standa á barmi gjaldþrots.

Líklegt verður að teljast að þessi tilteknu leiguflug til Evrópu séu fyrir atbeina kínverskra yfirvalda, sem með þessu litla verkefni vilja rétta lítilli vinaþjóð sinni hjálparhönd, því satt best að segja, þá eiga þeir líkast til sjálfir nægan flugvélaflota og varla myndu Lufthansa eða KLM fúlsa við flutningnum.

Eins og ég hef reyndar nýlega skrifað um hér á blogginu, þá væri upplagt fyrir Flugleiði að bjóða upp á (já, einmitt) beint flug á milli Íslands og Kína, því það gæfi sérstaklega Kínverjum á austurströndinni þægilegt tækifæri á að hefja eða ljúka hringferð sinni til hvort sem heldur Evrópu eða austurstrandar Bandaríkjanna.

Auðvitað gæfi þessi flugleið sömuleiðis Bandaríkjamönnum og Evrópubúum sama tækifærið á að slá fleiri flugur í einu höggi með millilendingu eða viðkomu á Íslandi.

Loks má ekki gleyma sívaxandi flutningum og ferðalögum okkar sjálfra til þessa fjarlæga heimshluta sem myndi vonandi spara okkur og alveg örugglega einfalda ferðalagið.


mbl.is Icelandair flytur lækningavörur til Þýskalands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er tækifæri til viðhalds og endurbóta.

Um þessar mundir hefur atvinnuleysi margfaldast, eins og liggur í augum uppi við þessar lamandi aðstæður sem eðlilega þýðir að öll ferðaþjónusta liggur niðri.

Þetta hefur í för með sér að tugir þúsunda verða atvinnulausir og lenda flestir á framfærslu hins opinbera um óákveðin tíma, en blasir það þá ekki við að nú er loks runnið upp tækifæri til að ráðast í viðhald og endurbætur á öllum helstu ferðamannastöðum landsins, sem á síðustu árum hafa bókstaflega verið fótum troðnir myrkranna á milli af tugum þúsunda ferðamanna, fyrir utan þá staðreynd að rándýrir iðnaðar-og verkamenn hafa ekki beinlínis legið á lausu.

Ég ímynda mér að í hópi þeirra á þriðja tugs þúsunda bústnu bæjar-og ríkisstarfsmanna sem á sinni könnu hafa að sjá um velferð og þrif þjóðfélagsins, hljóti að finnast einhverjir til þess bærir að sjá um og skipuleggja harðsnúna vinnuflokka sem á næstu mánuðum gætu t.a.m. komið svaðinu í kringum Geysi og allar hinar perlurnar í viðunnandi stand og má telja nokkuð öruggt að hægt væri að ná góðum samningum við nærliggjandi hótel um fæði og gistingu fyrir mannskapinn.

Mörg önnur þjóðþrifa verkefni bíða þess einungis að vaskir sveinar og meyjar taki sér kúst, pensil eða skóflu í hönd og þrífi og lagi t.d. grút-skítuga höfuðborgina, auðvitað undir leiðsögn sérfræðinga borgarinnar.


mbl.is Sérstakt átak til að ná útlendingum í skimun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjúklegar áhyggjur af þróun Kína

Ég hef undanfarið ítrekað rekist á pistla og greinar, þar sem nafngreindir einstaklingar láta í ljós áhyggjur og jafnvel ótta yfir vaxandi áhrifum Kínverja og að sama skapi augljósri hrörnun þeirra vestrænu stórvelda sem drottnað hafa yfir flest öllu hér á jörðinni undanfarin árhundruð.

Það hefur auðvitað vakið upp eðlilegar spurningar og vangaveltur að þessi eitraði vírus sem er að leggja líf okkar og öll kerfi á hliðina, er álitinn eiga upptök sín í Kína, en eins lengi og ég man þá hefur árleg flensa ætíð verið sögð frá Asíu og síðan má ekki gleyma hinni svokölluðu Spönsku-veiki sem reyndar átti upptök sín í herstöð í Kansas, þaðan sem hún barst til Evrópu með hermönnum sem hugðust leggja bandamönnum lið, en varð reyndar til þess að tugir milljóna Evrópubúa á besta aldri létu lífið.

Mergurinn málsins er að veirur og plágur munu því miður ætíð halda áfram að hrella okkur.

Hvað ítrekuð níðskrifin um Kína snertir, þá ber það nú helst að mínu mati vott um skert minni eða höfnun á staðreyndum, þegar aðgerðir og athafnir svokallaðra bandamanna okkar er virtar og lofsamaðar og endist mér varla aldur til að telja upp þau augljósu ódæði og lygar á borð við söguna um gereyðinga vopn Saddams, sem þessir augljósu óvildarmenn Kínverja hafa gleymt og liggur það ekki í augum uppi að Kínverjar eiga frekar erindi í S-Kínahafi heldur en Bandaríkjamenn?

Broslegasta dæmið um taugaveiklislegan Kína óttann sá ég í morgun, þegar birt var smáfrétt hér í blaðinu um brú sem hrundi á Ítalíu og var þá ekki að spyrja að því, að skömmu síðar var komið blogg viðhengi við fréttina, sem bar yfirskriftina: "Svona fer þegar maður fer Kínaleiðina"
Þarna álít ég að dæmi um hinn töluvert algenga Dunning-Kruger "effect" sé að ræða, því mig grunar að þessi óttaslegni bloggari hafi aldrei svo mikið sem stigið fæti sínum á kínverska jörð, líkt og líklega á við um flesta áköfustu skoðanabræður hans í Kína skelfingunni - því miður.


mbl.is Ein og hálf milljón hefur greinst með kórónuveiruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auralausir lífeyrissjóðir?

Úrsögn stjórnarmanna úr miðstjórn ASÍ hlýtur að vekja grunsemdir um að eitthvað meira en lítið hrjái vellauðuga lífeyrissjóði okkar, sem fullyrt er að eigi yfir fimm þúsund milljarða króna.

Illa innrættir samsæriskenninga smiðir hafa reyndar látið í veðri vaka að þegar á reyndi, þá kæmi í ljós að fremur lítið færi fyrir öllum auðæfunum, því þau hefðu bara einhvern veginn glatast, horfið eða bara verið stolið.

Nú er sú stund runninn upp að á reynir og einstaklingar og fyrirtæki landsins þarfnast sárlega þessa stuðnings, en þá lítur út fyrir að svo lítið fé sé í hirslum lífeyrissjóðanna, að þeir geti ekki beðið með greiðslur iðgjalda í fáeinar vikur, líkt og um eignalausa gegnumstreymis sjóði væri að ræða.


mbl.is „Versta leiðin var valin, að gera ekki neitt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband