Fjárplógsstarfsemi íslenskra tryggingafélaga.

Starfsemi og rekstur tryggingafélaga á Íslandi er nokkuð frábrugðin rekstri tryggingafélaga í samanburðarlöndum okkar vegna þess að flest ár eru tjón hér minni vegna gæða, styrks og brunavarna húsnæðis og t.d. hvað bifreiðatryggingar varðar, þá þekkist hér vart að dýrum bílum sé stolið og þeir hverfi til annara landa, líkt og tryggingafélög þeirra landa þurfa í stórum stíl að bæta.

Hér virðist formúla flestra tryggingafélaga ganga út á að láta viðskiptavini greiða síhækkandi iðgjöld öll stóráfallalaus ár og stinga hagnaðinum í vasa eiganda vel vitandi og auðvitað meðvituð um að á landi eins og okkar verða reglulega stóráföll á borð við jarðskjálfta og aðrar náttúruhamfarir, sem þessi sömu tryggingafélög þurfa auðvitað að bæta og eðli málsins samkvæmt ættu því að nota rólegu stóráfallalausu árin til að safna í sarpinn fyrir “óvæntum” hamförum.

Í stað þess að undirbúa sig fyrir þau væntanlegu áföll, þá virðast flest þessara félaga enn og aftur ætla að nota bótasjóði sína í þágu eigenda sinna, líkt og Sjóvá gerði fyrir aðeins örfáum árum og vísa allri ábyrgðinni glottandi á skattgreiðendur.

Tryggingafélagið Vörður hefur alveg nýverið samþykkt á aðalfundi að greiða hófstilltan arð til eigenda sinna og hef ég því ákveðið að flytja allar mínar tryggingar til þeirra, í þeirri von að þeir láti líka góða viðskiptavini að fenginni reynslu njóta betri kjara, í stað þess að læða hljóðlega inn árlegum verðhækkunum að hætti míns fyrra tryggingafélags.


mbl.is Mótmæli skila lækkun iðgjalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vörður tryggingar hf. er dótturfélag færeyska bankans BankNordik. Arðgreiðslur Varðar 2016 eru sambærilegar við arðgreiðslur Íslensku tryggingafélaganna fyrir lækkun og eru því með því hæsta sem býðst þetta árið. Krónutalan er vissulega lægri, enda fyrirtækið minna, en eigandinn er að fá góða ávöxtun á sinni eign. Vörður hefur einnig fylgt hinum tryggingafélögunum í hækkunum og hefur ekki séð ástæðu til að láta góða viðskiptavini njóta betri kjara.

Vörður er rekinn á sama hátt og hin tryggingafélögin en hefur það framyfir að geta greitt eiganda sínum út háan arð sem í krónutölu sýnist hóflegur þó hann sé hlutfallslega hærri en sá arður sem kallast óhóf og græðgi hjá Íslensku tryggingafélögunum.

Jós.T. (IP-tala skráð) 26.3.2016 kl. 19:50

2 Smámynd: Jónatan Karlsson

Vörður tryggingar hf. hélt aðalfund sinn föstudaginn 18. mars. Á fundinum var ársreikningur fyrir árið 2015 samþykktur. Rekstur Varðar gekk vel á síðasta ári líkt og undanfarin ár. Afkoman var sú besta í sögu félagsins eða 658 m.kr. eftir skatta. Iðgjöld jukust um 8,5%, fjárfestingatekjur um 161% og heildareignir um 10,4% en þær námu 11.330 m.kr. í árslok. Eigið fé félagsins nam í lok árs 3.475 m.kr. og jókst um 11,5%. Arðsemi eigin fjár var 22,8% og eiginfjárhlutfall var 30,7%. Tjón ársins jukust um 17,4% á árinu og var samsett hlutfall samstæðunnar 105,8%.

Á fundinum var tekin ákvörðun um að greiða 350 m.kr. í arð en sú fjárhæð samsvarar til 10,1% ávöxtunar á eigið fé félagsins. Þetta er í þriðja sinn á síðustu tíu árum sem Vörður greiðir arð og hefur arðsfjárhæðin í öll skiptin tekið mið af hóflegri ávöxtun á eigið fé.

Jónatan Karlsson, 26.3.2016 kl. 20:20

3 identicon

Það geta allir haldið því fram að arðsfjárhæð þeirra taki mið af hóflegri ávöxtun á eigið fé. En þegar þessi svokallaða hóflega ávöxtun á eigið fé er kölluð græðgi og óhóf hjá öðrum er ástæða til að staldra við og leggja sjálfstætt mat á fullyrðinguna. Enda kemur hún ekki frá hlutlausum aðila.

Íslenska Sjóvá 10%=óhóf, færeyska Vörður 10%=hóflegt. Angi af því að krafa almennings er að Íslensk fyrirtæki, bankar og tryggingafélög séu rekin án hagnaðar eins og góðgerðarsamtök.

Jós.T. (IP-tala skráð) 26.3.2016 kl. 21:29

4 Smámynd: Jónatan Karlsson

Við verðum einfaldlega að sætta okkur við þá staðreynd að við erum á öndverðum meiði í þessu máli

Þér þykir greinilega ágætt og eðlilegt að þessi tryggingafélög greiði þúsundir milljóna úr sjóðum sínum í vasa eigenda sinna, en ég er bara þeirrar skoðunar að svo sé ekki.

Að mínu mati þá á einfaldlega það sama við um félög og einstaklinga hvað það snertir, að ekki er hægt að segja um einstakling að hann sé heiðarlegur, þó hann eigi það stundum til að stela.

Jónatan Karlsson, 27.3.2016 kl. 10:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband