21.12.2014 | 12:36
Lítil saga um hjálpsemi náungans.
Í gær héldum við litla fjölskyldan glöð í bragði í okkar venjubundnu laugardagsheimsókn til foreldrana í blómabænum Hveragerði.
Veðurspáin hljómaði nokkuð tvísýn, en ég á nýlegum heilsársdekkjum, þannig að við ákváðum að láta reyna á færið.
Fyrsta ljósaskiltið við Rauðhóla sagði að Hellisheiði væri lokuð, en Þrengsli fær, svo áfram héldum við. Vindur og skafrenningur fór vaxandi, þannig að þegar að næsta aðvörunarskilti kom, þá ákváðum við að láta gott heita og snerum við hjá Litlu kaffistofunni og héldum í átt til Reykjavíkur.
Eftir örfárra mínúntna akstur, þá lenti bíllinn í óvæntum ruðningi og snerist um einar 45°og sat þar fastur á ruðningnum.
Ég get auðvitað reynt að kenna um skafrenning, vind og óvæntum ruðning, en verð þó að bíta í það súra epli að meginástæða klúðursins, skrifast alfarið á eigið dómgreindarleysi mitt við þessar aðstæður.
Fyrsti bíll sem kom stöðvaði og var þar um unga konu að ræða, sem bauð fram aðstoð sína, en ég fullvissaði hana um að við værum öll heil og yrðum að bara að bíða eftir aðstoð.
Á næstu mínútum komu síðan nokkrir jeppar og söfnaðist á örfáum mínúntum 5 - 6 manna harðsnúinn hópur og með samræmdum skipulögðum handtökum þessara fumlausu kappa var okkur hreinlega lyft úr ruðningnum.
Rétt í því að við vorum kominn á beinu brautina, bar að björgunarsveita jeppa og bentu þeir mér að aka samstundis af stað í stað þess að fara að þakka öllum þessu fólki sem rétti mér bráðókunnugum manninum hjálparhönd í vandræðum mínum.
Ég vil nú reyna að koma þökkum á framfæri til allra þeirra sem aðstoðuðu okkur af hreinni óeigingirni og náungakærleik og hef ég engar aðrar upplýsingar en númerin á tveim fremstu jeppunum - SO 729 og LT 168
Að lokum þá er ég glaður að eiga nú litlu rauðu hjálparsveitakallana mína, því þeirra ótrúlega framlag er auðvitað ómetanlegt og á engan sinn líka, þó að í mínu tilviki hafi einstök hjálpsemi náungans orðið fyrri til.
Víða mikil hálka á vegum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.