19.11.2011 | 09:15
Af hverju Hönnu Birnu?
Einhverntíma í byrjun árs 2009 tók nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins skörulega af skarið í umræðunni um tuga milljóna greiðslur Fl group og Landsbankans í kassa flokksins og lýsti yfir að Sjálfstæðisflokkurinn myndi endurgreiða þessi framlög. Þar með viðurkenndi hann í raun að þetta hefðu verið ósiðsamlegar greiðslur, eða það sem í daglegu máli kallast mútur. Einhverjum vikum síðar byrjaði hann þó að draga í land með þessa iðrun og sáluhjálp innvígðra innmúraðara og bætti við að Sjálfstæðisflokkurinn hyggðist greiða þessa milljóna tugi, vaxtalaust á sjö árum - sannkölluð vildarkjör það. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar en ekki hef ég haft neinar spurnir efndum Bjarna á þessu loforði, þó þar fari maður sem ekki hefur orð fyrir að fara dult með góð verk sín.
Sorglegar staðreyndir um innræti og athafnir formannsins og í raun margra, ef ekki flestra þingmanna Lýðveldisins eru orðnar lýðnum ljósar á þessum þremur árum og eru það oftast kúlulán eða styrkir sem greiðslurnar eru nefndar, sem þessir kosnu fulltrúar hafa orðið uppvísir að hafa þegið fyrir unnin myrkraverk sín. Þeir gleymast heldur aldrei þingmennirnir 33 og síðar þeir 44 sem vildu leggja óréttmætar og ólögvarðar Icesave byrðarnar á herðar landa sinna. "Guð blessi Ísland" sagði Geir frammi fyrir þjóðinni með allt niður um sig í leikslok og blessunarlega held ég að hann hafi verið bænheyrður, því að fyrrum Alþýðubandalagsmaðurinn Ólafur Ragnar Grímsson og síðar þjóðkjörinn Forseti Íslands stóð fastur fyrir og vísaði Icesave samningunum til þjóðarinnar, sem hún auðvitað kolfelldi. Staðfesta og heillyndi Ólafs mun ætíð fylgja nafni hans og orðspori, líkt og óheillyndi áður nefndra þingmannanna mun fylgja þeim um aldur og ævi.
Hvað er nú til ráða? Í þessu formanns kjöri er Hanna Birna afdráttarlaust hinn betri kostur fyrir framtíð Sjálfstæðisflokksins, þó svo að svartur skuggi fyrrverandi framkvæmdastjóra og helsta fjáröflunarstjóra flokksins fylgi henni enn um hríð. Aftur á móti mun Bjarni aldrei geta þrifið fyrir sínum dyrum og mun rogast með verk sín, sjálfum sér og sínum nánustu til ævarandi vandræða og vansa.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.