Karl Jónatansson - aldarminning.

Í dag fyrir réttum hundrað árum, þann 24. febrúar 1924 fæddist á köldum vetrardegi faðir minn, á bænum Blikalóni á Melrakkasléttu og var hann frumburður foreldra sinna.

Mig langar að minnast föður míns, Karls Jónatanssonar harmonikuleikara og sannkallaðs tónlistarfrömuðar, en alla ævi spilaði hann og kenndi, auk þess að semja og útsetja líkt og hundruðir nemenda og samferðafólks minnist hans fyrir.

Harmonikan var hans aðal hljóðfæri og eru það helst á því sviði sem hans er minnst, þegar lög hans hljóma víðsvegar, en pabbi kom samt víðar við í tónlistinni. Hann elskaði gömlu stórsveita sveifluna og hafði spilað bæði á trompet og saxafón þegar hann rak hljómsveit sína um land allt á því blómaskeiði sem stóð yfir á stríðsárunum og u.þ.b. tíu árum betur, eða uns nýir tímar runnu upp með komu rokks og pops sem gerði, að á skömmum tíma söðlaði pabbi um og sneri sér aðalega að harmonikunni og kennslu á hana, þó hann daðraði ætíð við mörg önnur tónlistarform, bæði harmonikusveitir og hefðbundnar stórsveitir auk þess að vera auðvitað nánast frá barnsaldri og fram á gamals aldur hljóðfæraleikari og það að auki eitt og sér í fullu starfi.

Fyrir utan ótrúlega fjölbreytta ferilskrá pabba, þá minnist ég hans í dag öllu öðru fremur fyrir að hafa verið ljúfasti og besti faðirinn í vályndum heimi, sem ætíð var til staðar og átti tíma fyrir umhyggju, ást og kærleik handa litlu fjölskyldunni sinni.


Bloggfærslur 24. febrúar 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband