Suðurlandið sekkur á jólanótt 1986

Í tilefni fréttar varðandi takmörkun útkallssvæðis björgunarþyrlu í 20 sjómílur frá landi vegna flugöryggis, þá get ég ekki á mér setið og læt hér fylgja tvær úrklippur fjölmiðla frá eftirminnilegu björgunarafreki, þar sem þyrla var í aðalhlutverki.

1) Á jólanótt árið 1986 sökk íslenska flutningaskipið M/S Suðurland um 300 sjómílur austan af Langanesi, miðja vegu milli Íslands og Noregs. Skiptið var á leið til Murmansk í Rússlandi, fyllt saltsíld og voru ellefu skipverjar um borð. Áhöfnin var uppáklædd og í hátíðarskapi í tilefni jólahátíðarinnar. Það gerist síðan rétt fyrir klukkan hálftólf á aðfangadagskvöld að skipið sendi frá sér neyðartilkynningu og reyndist það hafa fengið á sig alvarlega slagsíðu og orðið fyrir miklu höggi.

2) "Báturinn var í slæmu standi. Við urðum því að standa uppréttir í bátnum, sem er ekki það auðveldasta við þessar kringumstæður, stórsjór og ágjöf. En þeir sem settust stóðu ekki upp aftur," var haft eftir Jóni Snæbjörnssyni, fyrsta stýrimanni, í forsíðufrétt í Morgunblaðinu sunnudaginn 28. desember 1986. "Þetta var vissulega hrikaleg staða en við trúðum því alltaf að björgun myndi berast., Við vorum alltaf að tala saman," segir Jón og rifjar upp að reglulega hafi farið fram nafnakall í hópnum og sagði hann samstöðuna hafa haft mikið að segja. "Það var mikill léttir þegar þyrlan kom. Ég var hífður síðastur um borð en þá var ég alveg búinn að vera," sagði Jón, en danska varðskipið Vædderen hafði verið í Færeyjum þegar neyðarkallið barst. Áhöfn björgunarþyrlu Vædderen þótti standa sig hetjulega við björgunina og voru þeir Arne Frøge, Jørgen Laursen, Jan Rasmussen og Claus Eriksen ásamt Preben Andersen, skipherra á Vædderen, sæmdir orðu hins íslenska lýðveldis fyrir þrekvirki sín við björgun skipbrotsmannanna.

Því má bæta við að Vædderen setti þegar á fulla ferð út í óveðrið til móts við skipbrotsmennina og hóf þyrla skipsins, (sem væntanlega var minni og ófullkomnari en þær sem landhelgisgæslan ræður nú yfir) sig á loft, strax og flugmenn álitu það mögulegt og stóð það reyndar svo tæpt, að loks þegar þyrlan sneri aftur með hina eftirlifandi, þá var einngis eldsneyti eftir til örfárra mínúntna flugs.


mbl.is Útkallssvæði þyrlna takmarkað vegna flugöryggis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband