Vitfirrt stjórnvöld.

Það er ömurlegra en fátækleg orð fá lýst að fjalla um helstu umfjöllunarefni samtímans hér á Íslandi, en þó ætla ég að reyna að hnykkja á örfáum einföldum tillögur sem flestar hafa auðvitað verið inni í umræðunni. Þarna er ég fyrst og fremst að hugsa um eftirfarandi málaflokka:
1) HEILBRIGÐISMÁL
2) SAMGÖNGUMÁL
3) KJARAMÁL

1) Heilbrigðismál
Helstu vandamál heilbrigðisþjónustunar eru óviðunnandi launakjör starfsfólks, hrópandi skortur á tækjabúnaði og nýju og betra húsnæði.

Hvað uppbyggingu nýs Landsspítala varðar, þá virðist hópurinn sem ætlar að þröngva uppbyggingu húsaþyrpingarinnar við Hringbraut og alla á reiðhjólum vera með öll tögl og haldir í þeirri ákvörðunartöku og eru nýjustu fréttir úr herbúðum þeirra helstar að Halldór Ásgrímsson hefur að sögn verið kjörinn til forystu byggingarnefndar að Ingu Jónu Þórðardóttur gengini, án þess að ég fullyrði neitt frekar um þær vegsemdir allar.

Það liggur hinsvegar alveg ljóst að ef rök og heilbrigð skynsemi réðu för, þá væri tafarlaust hafist handa við byggingu nýrrar álmu við Borgarspítalan í Fossvogi, líkt og flestir sérfróðir virðast sammála um og er t.d. nærtækt að benda á skrif Sigurðar Oddsonar verkfræðings um öll þau málefni.

Eina nýja uppástungu langar mig þó að viðra, en hún er sú að nýta efri hæðir og jafnvel allt útvarpshúsið í Efstaleyti undir læknadeild HÍ, og væri þá hægt um vik fyrir kennara og læknanema að ganga, hlaupa eða hjóla að eigin vild á milli spítala og kennsluhúsnæðis.

2) Samgöngumál.
Vegakerfið hér á landi á það sameiginlegt með húsnæði heilbrigðis- þjónustunar, að reglubundins viðhalds er þörf. Þetta er reyndar staðreynd, sem á við um allar byggingar og mannvirki, bæði stærri og smærri og ætti í raun og veru að vera óþarfi að þurfa að hafa orð á, hvort sem það er vegamálastjóri, forstjóri ríkiseigna eða fjármálaráðherra, sem ber ábyrgð á þessum málaflokki.

Reglulega koma fram fáránlegar uppástungur um járnbrautalestir, hvort sem þær eru á milli Reykjavíkur og Keflavíkur, eða bara innanbæjar í höfuðborginni.
Tómir strætisvagnar segja allt sem þörf er á í því samhengi og ekki ástæða til að eyða fleirri orðum í þá firru.

Annað er hinsvegar sláandi, en það er sú ótrúlega staðreynd, að hér eru allir fólksflutningabílar olíuknúnir. Sennilega er ekki einn einasti strætisvagn eða rúta hér á landi rafknúin, þó það ætti nánast að vera lögbundið fyrir þesskonar starfssemi.

Að lokum verð ég að minnast á Reykjavíkurflugvöll. Þröngir hagsmunahópar, nú síðast undir nafni "Valsmanna" þó nokkur vafi leiki á að nokkrir Valsmenn komi þar við sögu, hyggjast nú með góðu eða illu þræla upp nýju hverfi "snobbhill" við rætur Öskjuhlíðar, sem þar með útilokaði notkun hinnar svokölluðu NEYÐARBRAUTAR, sem er sannarlega réttnefni, því hún er lítið notuð, en þá sjaldan það skeður, þá er það einmitt í ofsa "útsynningi" eða N/A átt, sem eru einmitt verstu veðurfarslegar aðstæður fyrir flug hér í þessum landshluta og spyrja sjúkraflug og önnur forgangsflug ekki um hagstæða vindátt, heldur verður loftfarið einfaldlega að lenda við þau skilyrði sem ríkja á viðkomandi tíma.

Í stuttu máli, þá er það vitfyrring að ætla að útrýma og eiðileggja frábæran flugvöll og fjölmennan vinnustað hér í höfuðborg okkar einangruðu eldfjallaeyju, eiginlega svipað og að ímynda sér að vegna eignarhalds einhverra ótilgreindra mafíósa á landsvæðum í nágreni LaGuardia flugvallar í New York, að þeim tækist með álíka röksemdafærslum og þrýstingi að láta loka flugvellinum með uppbyggingu á nýju auðmannahverfi á þeim glæsilega byggingarreit að leiðarljósi.

Það er líklega flestum ljóst að íbúar og borgaryfirvöld í þeirri umdeildu stórborg tækju aldrei þátt í þeim skollaleik, jafnvel þó a.m.s.k. tveir aðrir stórir alþjóðaflugvellir séu til taks í næsta nágreni.

3) KJARAMÁL
Hvað kjaramál hér á landi varðar, þá er spilling og einkavinavæðing rótgróið og landlægt vandamál sem þarf auðvitað að fjarælægja með ákveðinni og beinskeyttri aðgerð, sem er þó önnur saga.

Meginástæðu núverandi stöðu kjaramála er einfaldlega hægt að skrifa á reikning leiðtoga framhaldsskólakennara, sem hótuðu í kjölfar samninga að taka þúsundir barna og unglinga í gíslingu verkfalls, nema því aðeins að þeir fengju margfalda hækkun á við hina umsömdu 2,8% hækkun sem stærstu verkalýðsfélög höfðu fallist á með þjóðarhag í huga.

Stærsti sökudólgur þessa óbærilega ástands á launamarkaði er því auðvitað ríkisstjórnin sjálf, sem beinlínis hleypti skriðu óraunhæfra launahækkana, eða "launaleiðréttinga" af stað með því að standa ekki fastir fyrir þegar á reyndi.


mbl.is Engin lausn í deilu tónlistarkennara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband